Snorri Einarsson heldur áfram góðu gengi meðal þeirra bestu í heimi. Hann keppti í 50 km göngu með hefðbundinni aðferð og hópræsingu í dag, en heimsbikarinn er sterkasta mótaröð í heimi. Keppnin fór fram í hinni frægu Holmenkollen braut í Oslo, Noregi.
Snorri átti frábæra göngu og endaði í 26.sæti og fékk 22.97 FIS stig sem eru hans næst bestu stig í vetur. Eftir frábæra göngu á HM í Seefeld þá tók hann stórt stökk á heimslistanum sem kom út fyrir helgi. Eftir keppni dagsins mun hann aftur taka stórt stökk á heimslistanum en í dag er hann með 40.40 FIS stig á listanum. Virkar heimslistinn þannig að best er að hafa sem fæst stig og er fremsti maður í heimi með um 0 stig. Meðaltala af fimm bestu mótunum fara inná heimslistann og gildir hvert mót í eitt ár.
Snjókoma var á keppnissvæðinu sem gerði færið í brautinni hægar en búist var við. Þetta leiddi til þess að enginn keppandi tók af skarið og því var þetta nánast einn stór hópur allan tímann. Hægt var að skipta um skíði tvisvar á meðan á keppninni stóð og var allur gangur á því hversu oft keppendur nýttu sér það. Snorri skipti tvisvar um skíði en fyrri skiptingin heppnaðist ekki vel og missti hann af hópnum og þurfti að nýta mikla orku í að ná honum aftur. Eftir það gekk smá brösulega að halda í við hópinn enda mikil orka farin en að lokum endaði hann í 26.sæti eftir góðan endasprett en hann var í fimm manna hópi sem endaði í 26. til 30.sæti. Ásamt því að fá góð FIS stig fær Snorri fimm heimsbikarstig en einungis 30 efstu sætin gefa heimsbikarstig.
Heildarúrslit má sjá hér.