Rétt í þessu var Snorri Einarsson að skrifa nýtt blað í sögu skíðagöngunnar á Íslandi. Hann átti ótrúlega göngu í 50 km keppni dagsins, sem var jafn framt sú síðasta á HM í Seefeld. Snorri endaði í 18.sæti sem er hans besti árangur frá upphafi. Einnig er hægt að fullyrða að þetta sé besti árangur hjá íslenskum skíðagöngumanni.
Snorri hafði rásnúmer 52 en ræst er út eftir heimslista FIS sem segir okkur það að útfrá heimslistanum var hann 52. sterkasti keppandinn í mótinu. Keppnin fór hægt af stað og greinilegt að enginn sem ætlaði að taka af skarið, enda erfitt að halda það út í 50 km. Um miðja göngu tók norðmaðurinn Hans Christer Holund af skarið og sleppti hann aldrei þeirri forustu og sigraði með glæsibrag. Það var í raun enginn sem reyndi almennilega að ná honum fyrr en rússinn Alexander Bolshunov reyndi þegar lítið var eftir, en það var einfaldlega of seint fyrir hann. Á eftir þessum tveimur kom svo stór hópur af keppendum, um 20-30 talsins, en hann fór minnkandi eftir því sem leið á. Allan tímann var Snorri hluti af þessum hóp og þegar lokaspretturinn hófst um bronsverðlaunin þá var í raun okkar maður í þeim hópi, aftarlega þó. Að lokum fór svo að Snorri endaði í 18.sæti sem er, eins og áður segir, algjörlega stórbrotinn árangur. Snorri sýndi það klárlega í dag hversu góður hann og vonandi heldur hann áfram á sömu braut.
Fyrir mótið fær Snorri 16.04 FIS stig sem eru hans langtum bestu FIS stig. Í dag er hann með 50.03 FIS stig og því um risa stóra bætingu að ræða.
Heildarúrslit má sjá hér.