Ísafjörður



Dalirnir tveir
 
Á skíðasvæðinu í Tungudal eru fjölbreyttar brekkur við allra hæfi. Í dalbotninum er barnalyfta fyrir þá sem eru að taka fyrstu beygjurnar. Beint fram af Sandfellinu eru mjúkir en brattir hjallar sem aðeins eru troðnir að hluta, þannig að auðvelt er að skíða utanbrautar. 

Innar í dalnum við Miðfellslyftuna, eru mýkri brekkur fyir meðalmennina sem reyndara skíðafólk sem ekki vill ýta sér niður brekkurnar ! Frá enda lyftunnar er upplagt að skella skíðunum á bakið og rölta upp á Miðfellið og njóta útsýnisins þaðan. Í sunnanverðu Miðfellinu er brött og skemmtileg brekka. Frá enda Miðfellslyftunnar eru mjúkar brekkur niður dalbotninn sem eru upplagðar fyrir fjölskylduna. 

Snjóbrettin eru að sjálfsögðu ekki skilin útundan.  
Ef aðstæður leyfa búa starfsmenn til stökkpalla, bordercross brautir og fleira til að stytta brettaköppum stundir.
 
Á Seljalandsdal er nánast alltaf opið þegar viðrar til útivistar. Reynt er að troða brautir eins snemma á daginn og mögulegt er. Best er að afla sér upplýsinga í talhólfi skíðasvæðisins 878 1011. Skíðamenn sem stunda sína íþrótt eftir að dimmt er orðið, geta kveikt á brautarlýsingunni. 

Troðnir eru 2,5, 3,5 og 5 km hringir.  Frá Seljalandsdal liggja vegir til allra átta þó ekki séu alls staðar troðnar brautir.  Auðvelt er að fara þaðan yfir á Breiðadalsheiði og þaðan niður í Engidal.  Einnig má fara upp á Kistufell og niður í Hnífsdal eða yfir til Bolungarvíkur.  
Í Tungudal er troðinn hringur á golfvellinum og um skógræktina þegar snjóalög leyfa.  Fossavatnsgangan er haldin árlega um mánaðamótin apríl/maí .

Fullkomin lýsing er á báðum svæðum.  Göngumenn kveikja sjálfir á brautalýsingu á Seljalandsdal og er rofinn utan á skíðaskálanum.  Síðasti maður muni að slökkva ljósin.
 
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu svæðisins