Sunnudaginn 17.janúar fer fram Snjór um víða veröld eða World Snow Day í fimmta skiptið. Skíðasamband Íslands ásamt aðildarfélögum sínum og skíðasvæðum landsins hafa tekið þátt í deginum frá upphafi. Samkvæmt tölum frá FIS eru 625 viðburðir skráðir til leiks í 42 löndum og er Ísland eitt af sjö löndum sem er með viðburði skráða um allt land.
Markmið Snjór um víða veröld er að fá börn og fjölskyldur þeirra í fjallið, til þess að njóta og upplifa þess sem fjöllin hafa upp á að bjóða. Aðal markhópurinn eru börn á aldrinum 4-14 ára. FIS vill búa til heimsviðburð á snjó og kynna öryggisreglur fyrir börnum. Þetta er í fimmta sinn sem dagurinn er haldinn hátíðlegur víðsvegar um heiminn, og jafnframt fimmta sinn sem að Ísland tekur þátt í viðburðinum. Níu skíðasvæði víðsvegar um landið bjóða upp á allskonar afþreyingu, afslætti og fríðindi fyrir þá sem heimsækja þá þann 17. janúar.
Helsta ástæðan fyrir því að farið var af stað með World Snow Day var að fá fleiri til þess að iðka skíði en sú tala fór lækkandi frá aldamótum fram til 2010. Fyrir utan að kynna skíðaíþróttina fyrir alheiminum með svona viðburði eins og World Snow Day er verið að reyna að fá börn, og aðra, til þess að njóta útivistar í óspilltri náttúru og sjá hag sinn í að huga að heilsunni með hollri hreyfingu.
Við hvetjum alla til að kíkja á skíðasvæði landsins um helgina.