Vetrarólympíuleikar ungmenna - Lillehammer 2016

Þann 12. febrúar nk. verða aðrir Vetrarólympíuleikar ungmenna formlega settir í Lillehammer í Noregi.

Líkt og á fyrstu leikunum, sem fóru fram í Innsbruck árið 2012, mun Ísland eiga tvo keppendur í alpagreinum skíðaíþrótta og einn í skíðagöngu. 

Hefur Skíðasamband Íslands (SKÍ) tilnefnt þau Hólmfríði Dóru Friðgeirsdóttur frá Skíðaráði Reykjavíkur og Bjarka Guðjónsson frá Skíðafélagi Akureyrar sem keppendur í alpagreinum á leikunum og Dag Benediktsson frá Skíðafélagi Ísafjarðar sem keppanda í skíðagöngu.  SKÍ hefur einnig valið tvo þjálfara til að fylgja hópnum á leikana og eru það þeir Grímur Rúnarsson fyrir alpagreinar og Steven Gromatka fyrir skíðagöngu. 

Framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur staðfest þessa tilnefningu SKÍ sem og endanlegan hóp þátttakenda á leikunum en auk keppenda og þjálfara mun Örvar Ólafsson, starfsmaður ÍSÍ, verða aðalfararstjóri á leikunum og Íris Berg Bryde mun gegna hlutverki ungs sendiherra á leikunum, en ÍSÍ gafst kostur á að tilnefna einn slíkan þátttakanda á síðasta ári. 

Á leikunum munu um 1.100 keppendur á aldrinum 15 - 18 ára frá 70 löndum keppa í 15 vetraríþróttum.  Leikarnir hefjast föstudaginn 12. febrúar og þeim lýkur sunnudaginn 21. febrúar.
Leikarnir verða fjórðu Ólympíuleikar ungmenna, en í annað skiptið sem um vetrarleika er að ræða.  Um 3.000 sjálfboðaliðar munu starfa á leikunum og mörg íþróttamannvirki frá Ólympíuleikunum 1994 verða nýtt fyrir keppni á þessum leikum.

Frekari upplýsingar um leikana má finna á heimasíðu þeirra á slóðinni http://www.lillehammer2016.com/