Um helgina fór fram skíðaþing SKÍ en var þetta fyrsta þingið að hausti til eftir breytingar á síðasta skíðaþingi. Útaf aðstæðum var skíðaþingið haldið rafrænt í gegnum Microsoft Teams kerfið. Hægt er að fullyrða að þessi rafræna lausn hafi virkað virkilega vel og var mæting á alla fundi vonum framar.
Þar sem skíðaþingið var rafrænt var dagskráin óhefðbundin. Byrjað var á nefndarfundum, hver í sínu lagi fyrir allar þrjár greinar sambandsins, alpagreinar, skíðagöngu og snjóbretti. Nefndirnar fjölluðu um öll þingskjölin ásamt því að vera með nokkur mál til umræðu. Allsherjarnefnd var ekki starfandi á þessu óhefðbundna skíðaþingi. Eftir hádegi á sunnudag fór svo fram þingfundurinn sjálfur þar sem atkvæðagreiðsla fór fram um þau mál sem lágu fyrir skíðaþingið. Engin kosning var í stjórn eða nefndir enda er kjörtímabil þeirra tvö ár þrátt fyrir að skíðaþing sé haldið núna á hverju ári.
Helstu niðurstöður skíðaþingsins:
Þingskjal 1 um fjárhagsáætlun - Samþykkt
Þingskjal 2 um gjaldskrá - Samþykkt
Þingskjal 3 um lagabreytingu - Samþykkt
Þingskjal 4 um brautarlögn í alpagreinum - Samþykkt að fella reglugerð úr gildi
Þingskjal 5 um Skíðamót Íslands í skíðagöngu - Breytingartillaga frá Skíðafélagi Ólafsfjarðar samþykkt
Stærsta málið sem var á dagskrá var um Skíðagöngumót Íslands (síðar samþykkt sem Skíðamót Íslands í skíðagöngu). Stjórn SKÍ lagði til að búið yrði til sérstakt Íslandsmeistaramót fyrir alla aldursflokka í skíðagöngu. S.s. að aldursflokkar í skíðagöngu frá SMÍ og UMÍ myndu sameinast í eitt mót. Skíðafélag Ólafsfjarðar kom með breytingartillögu sem var á þá leið að UMÍ yrði óbreytt (áfram haldið saman í báðum greinum), en að fullorðinsmótinu yrði skipt upp. Breytingartillaga frá SÓ var samþykkt naumlega og niðurstaðan því að UMÍ verður áfram í óbreyttri mynd en Skíðamót Íslands er þá núna sitt hvort mótið, eitt fyrir alpagreinar og annað fyrir skíðagöngu. Með þessu er því hægt að halda SMÍ í alpagreinum og skíðagöngu á sitt hvorum staðnum.
Allar reglugerðir hafa verið uppfærðar sem og lög sambandsins á heimasíðunni.