Skíðasamband Íslands hefur gengið frá nýjum samningi við Vegard Karlstrøm, landsliðsþjálfara í skíðagöngu. Vegard hóf störf í maí 2017 og var samningurinn til eins árs með möguleika á framlengingu. Bæði SKÍ og Vegard vildu halda samstarfinu áfram enda hefur það gengið virkilega vel.
Vegard mun hafa yfirumsjón með A og B landsliðum næsta vetur ásamt því að taka virkan þátt í samæfingum. Stærsta verkefni næsta vetrar er klárlega HM sem fer fram í Seefeld í Austurríki. Sem undirbúning fyrir það verkefni munu landsliðin fara í nokkrar æfinga- og keppnisferðir. Einnig er stefnt á þátttöku á HM unglinga og Ólympíuhátið Evrópuæskunnar (EYOF). Síðasta en ekki síst mun Snorri Einarsson taka þátt í heimsbikar-mótaröðinni, sem er sú sterkasta í heimi.