Bikarmót í skíðagöngu var haldið á Hólmavík dagana 10.-12. mars, vegna snjóleysis í Selárdal var mótið haldið á Þrökuldum. Á föstudag var keppt í sprettgöngu með hefðbundinni aðferð, veður var óhagstæðast þennan dag af keppnisdögunum þremur því það hvessti með skafrenningi þegar sprettgangan var haldin. Laugardaginn 11. mars var Strandagangan haldin í 23. skiptið, að þessu sinni var gangan í fyrsta skipti hluti af bikarmóti SKÍ. Aðfaranótt laugardags hvessti af norðaustri með snjókomu og setti niður töluverðan snjó á mótssvæðinu, af þeim sökum þurfti að seinka göngunni um tvo og hálfan tíma auk þess sem erfiðlega gekk að troða brautina, af þeim sökum var brautin stytt niður í 5 km hring. Veður var hagstætt, sólskin hægviðri og hiti um frostmark. Þátttakendur í Strandagöngunni og bikarmótinu voru rúmlega 120. Fyrst í mark í 20 km vegalengdinni voru Sigurður Arnar Hannesson Ísafirði og Elsa Guðrún Jónsdóttir Ólafsfirði. Á sunnudag var keppt í göngu með frjálsri aðferð á bikarmótinu og gengnir 3,3 km, 5 km og 10 km. Aðstæður voru þokkalegar þar sem frysti aðfaranótt sunnudagsins og nýi snjórinn þéttist, en rétt áður en keppni hófst byrjaði að snjóa og var erfitt skyggni í brautinni. Keppendur í bikarmótinu voru frá fjórum félögum: Skíðafélagi Ísafjarðar, Skíðafélagi Strandamanna, Skíðafélagi Akureyrar og Skíðafélagi Ólafsfjarðar. Skíðafélag Strandamanna þakkar keppendum fyrir þátttökuna og starfsmönnum mótsins fyrir vel unnin störf á þessu fyrsta bikarmóti SKÍ sem Skíðafélag Strandamanna heldur.
Föstudagur 10.mars - Sprettganga
Laugardagur 11.mars - Strandargangan
Sunnudagur 12.mars - Frjáls aðferð
Öllum þrem bikarmótum vetrarins er því lokið og einungis eru stóru mótinu eftir, UMÍ og SMÍ.