Úrslit frá bikarmóti í skíðagöngu á Ólafsfirði

Í dag fór fram keppni í 20km göngu og var það til Íslandsmeistaratitils í lengri vegalengdum. Samhliða mótinu var Fjarðargangan en hún er hluti af Íslandsgöngunni. 

Veðrið lék heldur betur við þátttakendur í dag, logn var á mótsstað, heiðskýrt og frost. Keppni hófst með barnagöngu kl. 12:30 og kl. 13:00 var ræst út í bikarmót SKÍ, Íslandsmeistaramót og Fjarðargöngunni. Met þátttaka var í Fjarðargöngunni en alls tóku 64 vaskir göngugarpar þátt í dag. 

Íslandsmeistarar í karla og kvennaflokki urðu þau Sævar Birgisson og  Elsa Guðrún Jónsdóttir bæði frá Ólafsfirði. Í flokki 18-20 ára stúlkna varð Sólveig María Aspelund SFÍ íslandsmeistari og í flokkum 16-17 urðu Íslandsmeistarar Sigurður Arnar Hannesson SFÍ og Harpa S. Óskarsdóttir Ulli. 

Mikill fjöldi var á skíðasvæðinu Tindaöxl í dag og endaði dagurinn með glæsilegu tertu hlaðborði. Á morgun fer fram keppni með frjálsri aðferð á bikarmótinu og hefst keppnin kl. 11:00. 
 
Úrslit frá bikarmótinu í dag má sjá hér
Úrslit úr Fjarðargöngunni má sjá hér
 
Í gær hófst keppni á bikarmótinu en þá var keppt í sprettgöngu, úrslitin má sjá hér