Undankeppni á HM í skíðagöngu fór fram í dag

Fyrsti keppnisdagur á heimsmeistaramótinu í skíðagöngu byrjaði með undankeppni í 7.5 km með hefðbundinni aðferð. Ísland átti tvo keppendur þar, þá Ástmar Helga Kristinsson úr Skíðafélagi Ísafjarðar og Einar Árna Gíslason úr Skíðafélagi Akureyrar. 

Ástmar Helgi átti mögulega sína bestu göngu á ferlinum sem skilaði honum 6. sætinu, af 90 keppendum sem störtuðu, en hann var með fremstu mönnum allann tímann. Það eru bara 10 fyrstu í undankeppninni sem fá að taka þátt í öllum göngunum á mótinu, ásamt þeim sem komast beint áfram í lokakeppnirnar. Einar Árni átti líka mjög jafna og góða göngu og og var einnig með fremstu mönnum allan tímann, en hann endaði í 14. sæti og var aðeins 4 sek frá því að komast í topp 10. 

Sjá úrslit hér

Landsliðsfólkið okkar Kristrún Guðnadóttir, Dagur Benediktsson og Frode Hymer þurftu ekki að taka þátt í undankeppninni þar sem þau eru öll með undir 150 FIS stig á síðasta heimslista. Þau munu öll taka þátt í sprettgöngu með frjálsri aðferð á morgun, ásamt Ástmari Helga og Einari Árna og verður því Ísland með fullan kvóta karla megin. 

Kristrún hefur átt við meiðsli að stríða undanfarna mánuði og verður sprettgangan því hennar eina keppnisgrein á þessu heimsmeistaramóti. 

Sýnt er frá mótinu í beinni útsendingu á RÚV og einnig er hægt að horfa á FIS TV hér og Youtube hér

Sjá úrslti og live timing hér

Skíðasambandið óskar strákunum til hamingju með sterka göngu og öllum íslensku keppendunum góðs gengis á morgun.