Á morgun hefst Tour de Ski sem er hluti af heimsbikarmótaröðinni í skíðagöngu. Segja má að Tour de Ski sé af fyrirmynd hjólreiðakeppninnar Tour de France og var sett á lagirnar 2006 þegar heimsbikarinn í skíðagöngu gekk í gegnum mikla endurskoðun. Mótaröðin inniheldur sex til níu keppnir á stuttum tíma og að jafnaði er farið á fjögur keppnissvæði. Í ár er Tour de Ski haldið í 13. skiptið og keppt er í sjö keppnum í þremur löndum á einungis níu dögum.
Það skemmtilega við Tour de Ski er að keppt er í öllum greinum og margir eiga möguleika að sigra. Bæði í spretti og lengri vegalengdum, með frjálsri og hefðbundinni aðferð og þremur mismunandi ræsingum, einstaklings-, hóp- og eltiræsingu. Síðasti hlutinn er hið fræga klifur í Val di Fiemme en þar er keppt í eltigöngu og sá sem kemur fyrstur í mark er heildar sigurvegari í Tour de Ski. Klifrið er 9 km langt með 425 metra hækkun!
Snorri Einarsson, A-landsliðsmaður í skíðagöngu, mun taka þátt í ár í þessari vinsælu mótaröð. Er þetta í þriðja sinn sem hann tekur þátt en í fyrsta sinn undir merkjum Íslands. Tímabilið 2010/2011 tók hann þátt í fyrsta sinn og endaði í 30.sæti en tímabilið 2012/2013 náði hann ekki að ljúka keppni vegna veikinda. Í bæði skiptin var hann hluti af norska landsliðinu.
Það verður spennandi að fylgjast með Snorra keppa á meðal þeirra bestu næstu daga. Formið í upphafi tímabils var ekki eins gott og hann var að vona og sleppti því keppni í Beitostolen til æfa. Við vonum að æfingarnar skili sér í Tour de Ski.
Við munum fylgjast vel með gangi máli og flytja fréttir af öllum mótunum. Hér að neðan má sjá allar helstu upplýsingar.
Tour de Ski 2018/19
Toblach, Ítalía
29.des - Sprettur, frjáls aðferð (úrslitin hefjast kl.13:30 á íslenskum tíma)
Snorri hefur leik í undanrásum nr. 90 af alls 105 keppendum. Undanrásir karla hefjast kl.11:40 og ræsir Snorri kl. 12:02:30.
30.des - 10/15 km, frjáls aðferð (hefst kl.13:45 á íslenskum tíma)
Val Müstair, Sviss
1.jan - Sprettur, frjáls aðferð (úrslitin hefjast kl.11:00 á íslenskum tíma)
Oberstdorf, Þýskaland
2.jan - 10/15 km, hefðbundin aðferð, hópstart (hefst kl.13:00 á íslenskum tíma)
3.jan - 10/15 km, frjáls aðferð, eltiganga (hefst kl.11:45 á íslenskum tíma)
Val di Fiemme, Ítalía
5.jan - 10/15 km, hefðbundin aðferð, hópstart (hefst kl.14:10 á íslenskum tíma)
6.jan - Final Climb 9 km, frjáls aðferð, eltiganga (hefst kl.13:45 á íslenskum tíma)
Hægt verður að horfa á beina útsendingu frá mótinu á sjónvarpsstöðvum eins og NRK, SVT og Eurosport. Á heimasíðu FIS verður hægt að finna lifandi tímatöku og svo endanleg úrslit frá öllum hér.
Á heimasíðu mótshaldara má finna ýmsar upplýsingar um mótin og skíðasvæðin.
Toblach
Val Müstair
Oberstdorf
Val di Fiemme