Í dag fór fram aðalkeppni karla í stórsvigi á heimsmeistaramótinu í St. Moritz. Sturla Snær Snorrason var eini keppandinn frá Íslandi eftir að hafa unnið sér inn þátttökurétt í gegnum undankeppnina. Þar fóru 25 bestu áfram og Sturla Snær gerði sér lítið fyrir og endaði þar í 2.sæti.
Þrátt fyrir að hafa staðið sig vel í undankeppninni hóf Sturla Snær leik númer 81 í röðinni, en ræst er út eftir stöðu á heimslista FIS. Þrátt fyrir að hafa gert mistök í fyrri ferðinni endaði Sturla Snær í 52.sæti að henni lokinni og komst því í seinni ferðina þar sem einungis 60 bestu fá að fara. Í seinni ferðinni hlekktist Sturlu Snæ á, hann fór á hliðina eftir að hafa misst pressu á ytra skíðinu og missti af næsta hliði. Mikil vonbrigði fyrir Sturlu Snæ en þrátt fyrir það var mikið afrek að komast í seinni ferðina.
Austurríkismenn voru sigursælir í keppninni í dag þar sem Marcel Hirscher fékk gullverðlaun og Roland Leitinger fékk silfur. Voru þetta fyrstu gullverðlaun Hirschers í stórsvigi á HM en hann hefur nánast unnið allt annað sem hægt er að vinna. Norðmaðurinn Leif Kristian Haugen náði svo bronsinu.
Heildarúrslit má sjá hér.