Skíðasamband Íslands hefur ráðið Sturlu Höskuldsson í starf afreksstjóra.
Sturla Höskuldsson er 43 ára gamall, menntaður PGA golfkennari ásamt því að hafa lokið námi í rekstri og stjórnun. Sturla hefur starfað í íþróttum frá aldarmótum sem framkvæmda- og íþróttastjóri hjá golfklúbbum ásamt því að hafa starfað sem golfkennari, bæði hérlendis og erlendis. Sturla er kvæntur Kristínu Hólm og saman eiga þau tvö börn.
„Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu nýja starfi, að fá að taka þátt í að þróa afreksstarfið hjá Skíðasambandinu á faglegan og jákvæðan hátt. Ég er vissulega að koma nýr inní þetta úr annarri íþróttagrein (golfi) og það verður því mjög gaman og gefandi fyrir mig að læra nýja hluti og kynnast öllu því góða fólki sem bæði iðkar og starfar innan skíðaíþróttanna á Íslandi.“
„Það eru ákveðin tímamót í okkar starfi að ráða afreksstjóra og ég er mjög ánægður að fá Sturlu til okkar. Hans reynsla að hafa unnið með afreksfólki í golfi mun klárlega skila sér í starfið okkar. Núna hefjast spennandi tímar að gera afreksstarfið ennþá faglegra en áður og samhæfa afreksstarf ólíkra greina innan okkar sambands“ segir Jón Viðar Þorvaldsson, framkvæmdastjóri SKÍ.
Skíðasamband Íslands býður Sturlu Höskuldsson velkominn til starfa. Sturla mun hefja störf 1. október næstkomandi.