Í dag var keppt í stórsvigi kvenna á heimsmeistaramóti unglinga sem fram fer í Tarvisio á Ítalíu.
Sonja Lí Kristinsdóttir úr SKA var eini keppandinn frá Íslandi þar sem Elín Van Pelt úr Víkingi meiddist fyrir stuttu og verður frá æfingum og keppni í einhvern tíma. Sonja Lí var með rásnúmer 96 og var í 62. sæti eftir fyrri ferðina sem var nokkuð góð, utan við smá ströggl í miðri braut. Hún fékk því mun betra rásnúmer í seinniferðinni og keyrði sig upp um 11 sæti og endaði í 51 sæti.
Sjá úrslit hér
Þetta var fyrsta startið hjá Sonju Lí á heimsmeistaramóti unglinga, en árið 2023 þók hún þátt í Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar fyrir Íslands hönd. Til gamans má geta að hún er dóttir Kristins Magnússonar fyrrum landsliðsmanns í alpagreinum frá Akureyri sem keppti meðal annars á Ólympíuleikunum í Salt Lake City í Utha í Bandaríkjunum árið 2002.
Á morgun fer fram stórsvig karla í Tarvisio og mun Ísland eiga þrjá keppendur, landsliðsmennina Bjarna Þór Hauksson úr Víking og Jón Erik Sigurðsson úr Fram og einnig Pétur Reidar Pétursson úr KR sem hefur verið búsettur í Trysil í Noregi við æfingar og keppnir í vetur.
Sjá ráslista hér