Í morgun hófst heimsbikarmótaröðin með sprettgöngu í Ruka, Finnlandi. Farinn var 1,4 km hringur með hefðbundinni aðferð. Allir skráðir keppendur tóku þátt í undanrásum í morgun þar sem 30 bestu komust svo áfram í úrslitin.
Snorri Einarsson endaði í 77.sæti af alls 84 keppendum sem voru skráðir á ráslista. Snorri hóf leik nr. 81 en ræst er út eftir FIS stigum á heimslista þannig að hann náði að vinna sig upp um fjögur sæti miðað við það. Fyrir úrslitin fékk hann 150.17 FIS stig sem er einmitt bæting á heimslistanum. Sprettganga hefur ekki verið sérgreinin hans Snorra undanfarin ár og verið meira að einblína á lengri vegalengdirnar.
Hraðasti maður í undanrásum var sem fyrr Johannes Hoesflot Klaebo en hann virðist áfram vera óstöðvandi í sprettgöngu. Í úrslitunum var Klaebo fyrstur þegar stutt var eftir en gerði afrifarík mistök og missti rússann Alexander Bolshunov fram fyrir sig sem fagnaði sætum sigri. Virkilega spennandi keppni og greinilegt að barátta þeirra tveggja í vetur verður áhugaverð.
Hér má sjá öll úrslit frá Ruka.
Sunnudagur 25.nóv
15 km hefðbundin aðferð - Hefst kl. 13:30 að staðartíma og kl. 11:30 að íslenskum tíma.
Snorri verður meðal þátttakanda á morgun og hefur leik nr. 65 af alls 94 keppendum. Eins og áður segir er Snorri mun sterkari í lengri vegalengdum en spretti og því verður forvitnilegt að sjá hvað hann gerir á morgun. Snorri fer út kl. 12:02:30 að íslenskum tíma og ætti að fá einhvern sjónvarpstíma enda að ræsa á svipuðum tíma og stærstu stjörnurnar.
Hægt verður að horfa á beina útsendingu frá mótinu á sjónvarpsstöðvum eins og NRK, SVT og Eurosport. Á heimasíðu FIS verður hægt að finna lifandi tímatöku og svo endanleg úrslit hér.