Keppni á HM í norrænum greinum hélt áfram í dag eftir hlé í gær. Í dag fór fram skiptiganga hjá báðum kynjum, konur gengu 15 km en karlarnir fór 30 km og hjá báðum var hópstart. Aðstæður voru frábærar til keppni í dag, -5°C frost, logn og nánast heiðskýrt.
Elsa Guðrún Jónsdóttir keppti í kvennaflokki og fóru þær 7,5 km með hefðbundinni aðferð og 7,5 km með frjálsri aðferð. Elsa Guðrún sigraði undankeppnina sem fór fram fyrir þremur dögum og fyrir þann árangur fékk hún keppnisrétt í öllum aðalkeppnum í lengri vegalengdum. Elsa Guðrún endaði í 49.sæti sem er frábær árangur en hún er á sínu fyrsta heimsmeistaramóti.
Heildarúrslit hjá konum má sjá hér.
Snorri Einarsson keppti í karlaflokki og gengu þeir 15 km með hefðbundinni aðferð og 15 km með frjálsri aðferð. Snorri átti gott start og var fljótlega kominn í 30.sæti eftir að hafa haft rásnúmer 43. Keppnin var hörð og gengu fyrstu menn virkilega vel í dag og eftir um 7,5 km var Snorri aðeins búinn að dragast aftur úr fyrsta hópnum. Eftir 15 km var skipt yfir í frjálsa aðferð og fljótlega eftir að hún hófst lenti Snorri í því að detta og tapaði dýrmætum tíma. Að lokum endaði Snorri í 39.sæti sem verður að teljast frábær árangur.
Heildarúrslit hjá körlum má sjá hér.
Á morgun munu þeir Sævar Birgisson og Albert Jónsson keppa í liðaspretti sem hefst kl.11:30 að staðartíma (kl.9:30 á Íslandi). Á mánudaginn er svo frí hjá öllum en á þriðkjudag keppir Elsa Guðrún í 10 km göngu með hefðbundinni aðferð og að lokum keppir Snorri Einarsson í 15 km göngu með hefðbundinni aðferð á miðvikudag. Hópurinn heldur svo heim fimmtudaginn 2.mars.