Skíðaþingi 2017 lauk um helgina

Dagana 12.-13.maí fór fram Skíðaþing í félagsheimili Breiðabliks í Kópavogi. Skíðaþing fer fram á tveggja ára fresti og fara fram kosningar í stjórn og nefndir sambandsins ásamt því að laga- og reglugerðabreytingar eru teknar fyrir. Fyrir þingið lágu 21 þingskjal með breytingum á nokkrum reglugerðum en einnig voru tillögur að nýjum reglugerðum og stórum breytingum á lögum sambandsins. 

Hér að neðan verður stiklað á stóru um þær breytingar sem voru samþykktar. Þinggerð fyrir Skíðaþingið lýkur fljótlega og þar verður hægt að sjá nánari upplýsingar um þingið. Allar breytingar sem gerðar voru hafa verið uppfærðar í skjölum á heimasíðu SKÍ og er hægt að sjá slóðir neðst í fréttinni.

Ný stjórn SKÍ 2017-2019
Einar Þór Bjarnason - Formaður
Ögmundur Knútsson
Dagbjartur Halldórsson
Kristján Hauksson
Snorri Páll Guðbjörnsson
Einar Ólafsson
Friðbjörn Benediktsson

Nýtt félagsgjald
Breyting á gjaldskrá SKÍ var samþykkt en þar hafa stórar breytingar orðið. Undanfarin ár hefur SKÍ rukkað fyrir keppnisleyfi og fengið helmings hlut af öllum mótsgjöldum. Í nýrri gjaldskrá hefur keppnisleyfi SKÍ verið fellt út og í staðinn tekið upp nýtt félagsgjald þar sem aðildarfélög eru rukkuð eftir fjölda iðkenda auk þess sem mótsgjöld renna nú óskipt til mótshaldara.

Fulltrúafjöldi á Skíðaþing
Á Skíðaþingi 2015 var stjórn SKÍ falið að koma með tillögu að breytingu á þingfulltrúafjölda fyrir næsta þing. Tillaga stjórnar var samþykkt á þinginu en nú reiknast atkvæðafjöldi eftir iðkendum ásamt því að nú fá aðildarfélög sína fulltrúa beint, en ekki í gegnum héraðssamband eða íþróttabandalag. Einnig var ákveðið að hvert aðildarfélag gæti sent fjóra fulltrúa á Skíðaþing óháð atkvæðafjölda. Hugmyndin með breytingunni var að opna Skíðaþing betur til þess að aðildarfélög geti sent fleiri á þingið og allar umræður orðið fjölbreyttari.

Snjóbrettamót Íslands
Samþykkt var ný reglugerð um Snjóbrettamót Íslands og verður það þriðja stórmótið innan SKÍ, en fyrir eru Skíðamót Íslands og Unglingameistaramót Íslands. Snjóbrettaiðkendur munu því ekki taka þátt á UMÍ í framtíðinni þar sem Snjóbrettamót Íslands verður Íslandsmeistaramót fyrir allan aldur. 

Liðasprettur í stað boðgöngu
Miklar breytingar voru gerðar á keppnisgreinum í skíðagöngu á Skíðamóti Íslands. Aðallega voru breytingar á vegalengdum og aðferðum tengt því að nú er farið að keyra öll mót í skíðagöngu sem FIS mót. Ákveðið var að setja liðasprett í stað boðgöngu sem fjórðu grein á SMÍ. Í liðaspretti keppa tveir saman og ganga hvor um sig þrjá spretti. Ræst er með hópstarti og þykir þetta áhorfendavænni grein þar sem spennan er meiri og líkur eru á að fleiri lið geti tekið þátt á Íslandi með þessu fyrirkomulagi.

Tvær heiðursviðurkenningar
Stjórn SKÍ afhenti Smára Þorvaldssyni og Þórunni Sif Harðardóttur silfurmerki SKÍ fyrir frábær störf í þágu skíðahreyfingarinnar.

Upplýsingar um allt sem breyttist á Skíðaþinginu má sjá hér að neðan.
Stjórn og nefndir
Reglugerðir
Lög sambandsins