Skíðafólk ársins 2023

Skíðafólk ársins 2023, Kristrún Guðnadóttir og Snorri Einarsson (samsett mynd)
Skíðafólk ársins 2023, Kristrún Guðnadóttir og Snorri Einarsson (samsett mynd)

Skíðakona ársins 2023 er Kristrún Guðnadóttir og skíðamaður ársins er Snorri Einarsson.

Skíðakona ársins 2023 Kristrún Guðnadóttir

Kristrún átti mjög gott síðasta ár. Hún tók þátt í tveimur almenningsgöngum, Marcialong 70 km og varð þar í 31. sæti sem er mjög góður árangur. Síðan gerði hún ekki síðri göngu í Vasaloppet 90 km þar sem hún endaði í 39. sæti. Bæði þessi úrslit eru langbestu sæti sem íslensk kona hefur náð í lengri göngum. Næst besta sæti í Vasaloppert náði Salome Grímsdóttir þegar hún varð nr. 222 í kvennaflokki árið 2022.

Kristrún gerði líka fín FIS stig á tímabilinu. Hún er ótrúlega flott skíðakona og með háleit markmið. Hefur aldrei æft eins mikið og þetta árið og ætlar sér stóra hluti í vetur.

 

Skíðamaður ársins 2023 Snorri Einarsson

Árið var besta ár Snorra fyrr og síðar og um leið skilaði hann besta árangri skíðagöngumanns fyrr og síðar. Skákaði hann þar með árangri sínum frá því árinu áður. Á HM í Planica í Slóveníu (HM er oft talið jafnvel sterkara mót en Ólympíuleikar) átti Snorri frábærar göngur og í raun betri en á Ólympíuleikunum árið á undan þegar hann var valinn. Hann hafnaði í 28.sæti í skíðatvíkeppni og í 22. sæti í liðakeppni (með Degi Benediktssyni), og í 22.sæti í 15 km og 15. sæti í 50 km göngunni þar sem hann var á meðal fremstu manna megnið af göngunni. Þessi árangur hans, 15. sæti, er langbesti árangur Íslendings í skíðagöngu fyrr og síðar á stórmóti.

Á Skíðamóti Íslands í Reykjavík vann Snorri tvo Íslandsmeistaratitla. Skíðaganga er ein erfiðasta íþrótt sem hægt er að stunda og telja keppendur þúsundir. Það þarf svo margt að smella saman svo hægt sé að ná svona árangri, líkamlegt og andlegt form, óaðfinnanleg tækni og skíði svo ekki sé talað um baklandið. Snorri var ekki með heilt „team“ eða liða á bak við sig eins og allir hans keppinautar. Heilt lið af smurningsmönnum var hann heldur ekki með, eða lið sem stóð við brautina til að hvetja hann áfram og láta vita hvar hann stæði í keppninni. Snorri æfði ekki með heilu liði heldur mest einn á Ísafirði á hjólaskíðabretti í bílskúrnum. Það sem hefur einkennt Snorra og gert honum kleift að ná svona langt er ótrúlegur agi, þrautsegja og dugnaður svo ekki sé talað um líkamlegt úthald og bæði andlegan og líkamlegan styrk.