Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir og Snorri Einarsson eru skíðafólk ársins 2022.
Snorri Einarsson Skíðafélaginu Ulli náðibesta árangri skíðagöngumanns á Íslandi frá upphafi á Vetrarólympíuleikunum í Peking. Á Ólympíuleikunum náði hann 23. sæti í 50 km skíðagöngu með frjálsri aðferð, 29. sæti í 30 km skiptiganga, 36. sæti í 15 km skíðagöngu með hefðbundinni aðferð og varð í 19. sæti í liða sprettinum. Snorri varð einnig í 13. sæti á alþjóðlegu FIS móti í 15 km með frjálsri aðferð. Snorri er einnig þrefaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu á árinu í 10 km göngu með frjálsri aðferð, 15 km með hefðbundinni aðferð og í 1 km sprettgöngu. Þá sigraði Snorri einnig í 10 km hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu.
Snorri var valinn íþróttamaður Reykjavíkur 2022. Hann er ekki bara einn besti íþróttamaður Íslands heldur er hann líka mikil fyrirmynd og leiðandi í sínu umhverfi. Hann er mjög jákvæður og smitar út frá sér í landsliðinu sem fyrir vikið hefur aukið bæði gæði og árangur annarra liðsmanna í íslenska landsliðinu.
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir skíðakona úr Ármanni keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Peking í febrúar og var landi og þjóð til sóma. Þar náði hún 32. sæti í risasvigi og stórbætti stöðu sína á heimslista. Hún náði einnig 38. sæti í svigi af 88 keppendum sem hófu keppni.
Hólmfríður varð þrefaldur Íslandsmeistari á Skíðamóti Íslands í mars. Hún náði fjórum sinnum á verðlaunapall á alþjóðlegum mótum erlendis og var 12 sinnum meðal 5 bestu í svigi, stórsvigi, risavsigi, bruni og alpatvíkeppni. Hólmfríður sigraði belgíska meistaramótið í risasvigi, sem fram fór í Val d‘lsere í apríl, og er meðal 200 bestu skíðakvenna í risasvigi í heiminum í dag. Í ágúst síðastliðnum keppti Hólmfríður í Nýja Sjálandi og náði þar 74 stigum í álfubikarkeppni en hún endaði í 5. sæti í risasvigi og 9. sæti í stórsvigi.
Hólmfríður var í desember meðal þeirra sem tilnefndar voru til íþróttakonu Reykjavíkur og valin Íþróttakona Ármanns árið 2022.