Áfram hélt Ski Tour mótaröðin í dag þegar keppt var í 34 km göngu með frjálsri aðferð og hópræsingu. Keppni dagsins fór fram í Meråker í Noregi um var að ræða fjórðu keppnina af alls sex á einungis níu dögum. Ski Tour mótaröðin er hlut af heimsbikarmótaröðinni sem er sú sterkast í heimi innan FIS.
Snorri Einarsson hóf leik nr. 47 í rásröðinni en ræst var eftir stöðu á heimslista. Snorri byrjaði vel og náði að halda sér í fremsta hópnum og komst fljótlega upp um 15-20 sæti. Þegar leið náði hann að halda sér í hópi 20 efstu keppenda og að lokum náði hann 18.sætinu. Er það hans besti árangur á ferlinum í heimsbikar og augljóslega besti árangur íslensk skíðagöngumanns. Fyrir úrslitin fær Snorri 31.64 FIS stig og er það bæting á heimslista. Hann fær einnig 13 heimsbikarstig og er því samtals kominn með 17 heimsbikarstig, en einungis 30 efstu sætin gefa slík stig.
Til að útskýra og setja árangur Snorra í stærra samhengi má nefna að ríkjandi Ólympíumeistari í 50 km, Iivo Niskanen frá Finnlandi, var í 19.sæti og ríkjandi heimsmeistari í 15 km, Martin Johnsrud Sundby frá Noregi, var í 20.sæti. Einungis voru keppendur frá fimm þjóðum á undan Snorra, en þær þjóðir voru Rússland, Noregur, Sviss, Svíþjóð og Bretland.
Í heildarkeppni Ski Tour er Snorri í 24.sæti þegar einungis tvær keppnir eru eftir og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. Mótaröðin færist núna til Þrándheims í Noregi og á laugardag verður sprettganga og á sunnudag 30 km eltiganga með hefðbundinni aðferð.
Heildarúrslit má sjá hér.