Dagana 15. til 23. september voru haldnar æfingabúðir á vegum FIS i Val di Fiemme á Ítalíu, á slóðum Ólympíuleikanna 2026.
Fulltrúar Íslands að þessu sinni voru þau Ástmar Helgi Kristinsson frá Skíðafélagi Ísfirðinga og María Kristín Ólafsdóttir úr Ulli en alls voru 33 þátttakendur frá 11 þjóðum sem tóku þátt.
Krökkunum til halds og trausts var Einar Ágúst Yngvason frá Ísafirði. Þjálfarar frá öllum þjóðum fengu fræðslu og verklega þjálfun og stóð Einar Ágúst sig með stakri prýði.
Allir þjálfararnir voru ítalskir og meðal þeirra var fyrrverandi landsliðsfólk.
Það var samdóma álit Ástmars og Maríu að aðstæður voru töluvert frábrugnar því sem að þau eiga að venjast. Æft var í um 1800 metra hæð sem þau fundu talsvert fyrir. Það var þyngra að æfa og þreyttust fyrr.
Mikil áhersla var lögð á tækniæfingar og það sem kom Ástmari og Maríu á óvart var hversu mikil áhersla var lögð á tækniæfingar í hlaupaskóm og með stafi en ekki á hjólaskíðum eins og þau eiga að venjast á þessum árstíma. Æfingar voru teknar upp á videó sem þau skoðuðu svo saman með þjálfara sem þeim báðum þótti mjög gagnlegt.
Æfingarnar voru fjölbreyttar og má þar nefna 3000 metra hlaupatest, æfingamót á hjólaskíðum og fjallganga þar sem að þu fóru upp í ca. 2200 metra hæð. Ástmar og María segja að þau hafi kynnst full at öðrum iðkendum og að stemningin í hópnum hafi verið mjög góð.
Á kvöldin voru fyrirlestra um tækni, mataræði og áburðakennslu svo eitthvað sé nefnt. Kvöldin voru líka nýtt í spilamennsku og spjall ásamt því að fara nokkrum sinnum í blak.
Flest þeirra sem voru þarna höfðu áður verið með áður og ætluðu að taka þátt í sambærilegum æfingabúðum sem að verða í Þrándheimi í Noregi í byrjun desember.
En engin ferð er án áfalla og tóks Ástmari að týna vegabréfinu sínu á hótelinu á Ítalíu og eftir smá bras og þónokkrar tiltölur tókst Ástmari að sannfæra starfsfólk flugvallarins um að hann væri í raun íslenskur og á leið heim svo þetta reddaðist að lokum.
Ástmar og María eru sammála um að æfingabúðirnar hafi verið afar lærdómsríkar og skemmtilegar í alla staði og væru mikið til í að fara aftur í svona ferð.