Alpagreinanefnd SKÍ hefur hafið samstarf með fimm öðrum þjóðum með æfinga- og keppnisprógram fyrir landsliðsfólk. Ásamt Skíðasambandi Ísland eru skíðasambönd frá eftirtöldum þjóðum í samstarfinu, Danmörku, Belgíu, Hollandi, Írlandi og Lúxemborg. Liðið hefur hafið starfsemi og ber heitið Lowlanders alpine race team, en hægt er að fylgjast betur með starfseminni á facebook síðu liðsins.
Nýtt tímabil hófst 1.maí og var fyrsta ferð plönuð í maí en vegna covid-19 faraldursins þá þurfti að fresta fyrstu ferð. Liðið byrjaði þó að skíða í lok júní og hefur haldið áfram síðan þá. Fjórir íslenskir iðkendur munu taka virkan þátt í starfi liðsins í vetur og fóru tveir þeirra, Gauti Guðmundsson og Georg Fannar Þórðarson, í sína fyrstu ferð í byrjun ágúst. Sú ferð var æfingaferð í skíðahúsið, Snow Valley, í Belgíu.
Næsta ferð hjá Lowlanders liðinu er einnig í Snow Valley skíðahúsinu í Belgíu og fer fram dagana 22.-28.ágúst. Katla Björg Dagbjartsdóttir mun taka þátt í því verkefni.