Á haustfundi FIS í byrjun október var mikil umræða um skíðastafi og lengd þeirra í skíðagöngu. Snéri umræðan aðallega að lengd skíðastafa í göngu með hefðbundinni aðferð. Ýmis dæmi hafa verið um það að keppendur hafi verið að skipta um stafi fyrir mismunandi kafla í keppnisbrautinni ásamt því að menn hræðist að tvöfalt staftak (double poling) einfaldlega útrými hefðbundnu aðferðinni. Einnig hafa skíðasambönd tekið eftir auknum bakmeiðslum hjá börnum og unglingum vegna of langra stafa og of mikilli notkun á tvöfalda staftakinu. Útaf þessum nýju aðferðum hefur dómgæsla reynst erfiðari en áður og telja menn tími til komið að bregðast við.
Nýlega samþykkti svo framkvæmdastjórn FIS tillögu frá skíðagöngunefnd FIS. Nýja reglan er þannig að skíðastafir geta nú einungis verið 83% af hæð viðkomandi keppenda. Með þessari breytingu vill FIS reyna að varðveita betur hefðbundnu aðferðina. Frekari upplýsingar um nýju regluna er hægt að sjá hér.
Í vetur verður farið eftir nýju reglunni á bikarmótum SKÍ.