Skíðasamband Íslands hefur tekið í notkun nýtt mótakerfi. Tilgangur kerfisins er að halda utan um öll úrslit, stöðu í bikarkeppnum sem og að sjá um skráningar í mót. Um er að ræða öll úrslit á mótum sem tengjast SKÍ en einnig geta aðildarfélög SKÍ nýtt kerfið fyrir sín innanfélags eða opnu mót.
Efst á heimasíðu SKÍ má finna tengil "mótakerfi" þar sem hægt er að fara inná kerfið. Einnig er hægt að fara beint inná kerfið með slóðinni mot.ski.is og eins og áður segir er hægt að skoða eldri úrslit, viðburði framundan, stöðu í mótaröðum o.fl.
Kerfið er ennþá í vinnslu og verður út veturinn á þróunarstigi. Stefnt er að viðbótum á þessu ári og að næsta vetur verði kerfið komið í fulla notkun. Mikilvægt er að iðkendur sem sækja mót búi til sinn aðgang í kerfinu en það er gert undir "nýskrá" sem má finna efst í hægra horninu.