Fjórir keppendur úr landsliðum Íslands á snjóbrettum tóku þátt í Evrópubikar í Laax í Sviss þann 22. mars.
Baldur Vilhelmsson, Marinó Kristjánsson, Egill Gunnar Kristjánsson og Benedikt Friðbjörnsson voru allir meðal keppenda þegar keppt var í brekkustíl (slopestyle) við frábærar aðstæður. Alls voru 60 keppendur skráðir til leiks í þetta sterka mót.
Fyrst var keppt í undakeppni þar sem farnar voru tvær ferðir og komust þeir Baldur, Marinó og Egill allir í gegnum hana. Benedikt hlekktist á í báðum ferðum og komst hann því miður ekki í gegn að þessu sinni. Sex efstu keppendurnir úr undankeppninni fóru beint inní úrslitin, en þeir sem voru í sætum 7.-26. fóru inní undanúrslit, þar sem keppt var um hin sex lausu sætin í úrslitunum. Þó mjög litlu mátti muna, þá náði enginn íslensku keppendanna að komst uppúr undanúrslitunum og inní úrslitin, að þessu sinni.
Í heildarkeppninni náði Marinó besta árangri íslensku keppendanna og hafnaði í 17. sæti og hlut 22.40 FIS stig. Baldur náði 19. sætinu og hlaut 19.20 FIS stig og Egill Gunnar náði 20. sætinu og hlut fyrir það 17.60 FIS stig. Benedikt hafnaði í 55. sæti.
Úrslit mótsins má sjá nánar hér.