Snjóbrettanefnd Skíðasamband Íslands hefur valið landslið í snjóbrettum og skíðafimi fyrir 2024-2025 eftir áður útgefnum reglum.
í A-liði í snjóbrettum eru þau Anna Kamilla Hlynsdóttir, Vildís Edwinsdóttir og Arnór Dagur Þóroddsson en þau eru öll úr Brettafélagi Hafnarfjarðar (BFH).
Anna Kamilla sem stundar nám og æfingar í NTG Geilo var í B-liðinu í fyrra en hefur stöðugt verið að bæta sig og sýnt miklar framfarir og náði með góðum árangri að komast í A-liðið. Vildís sem býr í Åre í Svíþjóð þar sem hún æfir var einnig í A-liðinu í fyrra en Arnór Dagur sem æfir með Why ain't you liðinu í Austurríki er nýr inn í liðið eftir að hafa sýnt gríðarlegar framfarir í fyrra.
Benedikt Friðbjörnsson A-liðsmaður til margra ára afþakkaði sæti í liðinu. Baldur Vilhelmsson og Marinó Kristjánsson sem eru líka A-liðs menn til margra ára gáfu ekki kost á sér í landsliðið. Enginn náði lágmörkum í B-lið að þessu sinni.
í A-liðinu í skíðafimi (freestyle) er Jónar Sebastian Giljan Grímsson úr KR. Jónar er búsettur í Kongsberg í Noregi þar sem hann stundar nám og æfingar. Þetta er í fyrsta skipti sem Skíðasamband Íslands setur viðmið/valreglur í skíðafimi og velur í landslið og því er Jónar Sebastian sá fyrsti í sögunni til að vinna sér inn sæti í landsliði Íslands í skíðafimi.
Skíðasamband Íslands óskar þessu frábæra íþróttafólki til hamingju með landsliðssætið.