Eins og fram hefur komið hefur Katla Björg Dagbjartsdóttir ein fremsta skíðakona landsins lagt keppnisskíðin á hilluna, einungis 23 ára, eftir þrálát höfuðmeiðsli.
Katla Björg sem var í landsliði Íslands til margra ára fékk slæmt höfuðhögg og rotaðist þegar hún var á æfingu daginn fyrir Skíðamót Íslands árið 2022. Þrátt fyrir þau meiðsli og marga erfiða mánuði á síðasta tímabili þá varð hún þrefaldur Íslandsmeistari í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni.
Katla Björg tók þátt í tveimur Heimsmeistaramótum fullorðinna á ferlinum, í Cortina Ítalíu árið 2021, þar sem hún náði besta árangri íslenskra kvenna þegar hún hafnaði í 34. sæti, og í Courchevel-Meribel Frakklandi árið 2023. Hún tók einnig þátt í tveimur Heimsmeistaramótum unglinga í Åre Svíþjóð 2017 og í Davos Sviss árið 2018, auk þess tók hún þátt í Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Erzurum í Tyrklandi 2017.
Katla Björg sigraði tvö alþjóðleg svigmót fullorðinna á erlendri grundu í Abetone Ítalíu og Leogang Austurríki 2021. Hún hafnaði sex sinnum á verðlaunapalli á slíkum mótum auk þess að vinna fjöldann allan af alþjóðlegum mótum hérlendis. Katla Björg sigraði einnig fjölmörg bikarmót á Íslandi á ferlinum ásamt því að vera margfaldur unglingameistari sem og bikarmeistari.
Katla Björg er mikil keppnismanneskja og ætlaði heldur betur ekki að láta þessi meiðsli hafa áhrif á sig og stefndi ótrauð áfram. Það kom síðan að því að hún sá að með þessu áframhaldi næði hún ekki sínum markmiðum og þurfti að setja heilsuna í fyrsta sæti.
Skíðasamband Íslands óskar Kötlu til hamingju með glæsilegan feril og þakkar henni kærlega fyrir hennar framlag til skíðaíþróttarinnar.
Um leið og við óskum Kötlu kærlega fyrir hennar framlag til skíðaíþróttarinnar þá óskum við henni velfarnaðar á komandi árum og ekki síst núna í bataferlinu.
Þú ert frábær fyrirmynd Katla Björg, takk fyrir okkur.
Skíðasamband Íslands