Landsliðsmaðurinn okkar, Jón Erik Sigurðsson, hefur undanfarna viku tekið þátt í alþjóðlegri ungmennamótaröð (National junior race) og hefur komist á pall í öllum sjö mótunum.
Í gær og í dag keppti hann í svigi ásamt landsliðsmanninum Bjarna Þór Haukssyni. Í gær þá endaði Jón Erik í 3. sæti eftir að hafa verið með 4. besta tímann eftir fyrri ferðina. Bjarni Þór var með 6. besta tímann í fyrri ferðinni en náði því miður ekki að ljúka þeirri seinni.
Í dag þá var Jón Erik með 4. besta tímann eftir fyrri ferðina en tók besta tímann í seinni ferðinni sem skilaði honum 2. sæti og bestu svigpunktum á ferlinum, 32.56. Bjarni Þór stóð sig einnig vel og endaði í 6. sæti en náði ekki að bæta punktastöðu sína.
Þetta er frábær árangur hjá Jóni Erik sem fer heim með 1 gull, 4 silfur og 2 brons eftir þessa mótaröð og bætti bæði svig og stórsvigspunktana sína.
Einnig má geta þess að Elín Van Pelt skíðakona úr Víkingi, sem er okkar fremsta svigkona í dag, var við keppni á sama stað og strákanir og gerði sína bestu svigpunkta á ferlinum þegar hún endaði í 9. sæti í dag.
Skíðasambandið óskar þeim til hamingju með glæsilegan árangur.