Keppni hélt áfram á HM í norrænum greinum sem fram fer í Lahti. Í dag fór fram liðasprettur en það fer þannig fram að hvert lið stillir upp tveimur keppendum sem hvor um sig fer þrjá spretti.
Albert Jónsson og Sævar Birgisson kepptu fyrir hönd Íslands í dag. Lentu þeir í seinni undanrásunum og voru í hörku riðli með þjóðum eins og Rússlandi, Finnlandi og Kanada. Genginn var hringur sem var um 1,4 km að lengd með einni langri brekku, svokölluð Sundby-brekka eftir atvik gærdagsins í skiptigöngunni.
Sævar tók fyrri sprettinn fyrir liðið á meðan Albert tók þann seinni. Fyrsti spretturinn hjá Sævari var algjörlega frábær, en þegar hann kom inná skiptisvæðið var hann meðal fremstu manna. Eftir þennan sprett drógst liðið hægt og rólega aftur úr stóru þjóðunum sem keppt var við. Að lokum endaði liðið í 23.sæti sem er tveim sætum betur en á HM fyrir tveimur árum.
Árangurinn er flottur, en hreinlega er við ofuröfl að etja þegar kemur að þessum stóru þjóðum. Til að mynda unnu Rússar og Finnar enduðu í þriðja sæti eftir ótrúlega dramantík í lokin.
Heildarúrslit má sjá hér.