Egill Ingi Jónsson hefur verið landsliðsþjálfari alpagreina síðan 2016. Egill hóf sinn feril í Hamragili í kringum 6 ára aldur sem ÍR-ingur. Egill var hluti af unglingaliðum SKÍ en hann sótti einnig nám til Ísafjarðar árin 1985-1986 á skíðabraut menntaskólans sem þá var. Egill talar um þessi ár sem þau skemmtilegustu á ferlinum enda mikil samkeppni og góður hópur. Hann var hluti af landsliðshópi 1988-1989 en hætti að keppa um 22 ára aldur vegna bakmeiðsla. Í kjölfarið tók Egill þátt í uppbyggingu á skíðadeild Breiðabliks sem þjálfari, byrjaði með yngri flokka en fór fljótlega að vera með elstu hópana. Hann segir það hafa verið skemmtilegt verkefni að byggja upp deildina úr nánast engu.
Árið 2001 tók Egill sér nokkurra ára frí frá þjálfun, eða þar til eldri sonur hans fór að æfa skíði. Egill tók við sem þjálfari skíðaliðs Reykjavíkur árið 2014 og þjálfaði liðið allt árið um kring þar til nú í sumar.
Egill hefur verið viðloðinn starfsemi skíðasambandsins síðan 2012, en þá var hann formaður alpagreinanefndar. 2015 var Egill ráðinn verkefnastjóri landsliðsverkefna og svo landsliðsþjálfari 2016 eins og áður sagði. Egill hefur verið duglegur að sækja sér menntun á þjálfaraferlinum, en árið 2012 lauk hann ÍAK einkaþjálfaranámi meðal annars með það að markmiði að efla styrktarþjálfun skíðamann á Íslandi.
Egill býr í Hafnarfirði með konu sinni og tveimur unglingsstrákum, á milli ferða með landsliðinu starfar hann sem vörumerkjastjóri hjá heildversluninni Stoðtæki. Egill segist nýta frítíma til að hreyfa sig og þá helst með fjölskyldunni, spila golf, hjóla á fjallahjóli og vonandi gefist tími fyrir fjallaskíðaiðkun.
Egill segir komandi vetur leggjast vel í sig, það séu fjölmörg verkefni á dagskrá og má þar nefna æfingaferðir, samæfingar, heimsmeistaramót unglinga og svo auðvitað stærsta verkefnið sem er Vetrarólympíuleikarnir í Suður-Kóreu í febrúar.
Egill er núna í Landgraaf í Hollandi með hluta B-landsliðs en þar munu þau æfa í skíðahúsi til 28. september. Framundan er tveggja vikna æfingaferð á Hintertux jökul í Austurríki um miðjann október.