Skíðamót Íslands í alpagreinum sem fram fór í Oddsskarði lauk í dag með mjög spennandi og skemmtilegri keppni í samhliðasvigi karla og kvenna.
Það var frábært veður í Oddsskarði og topp aðstæður í alla staði þegar samhliðasvigið fór fram.
Íslandsmeistari kvenna varð landsliðskonan Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir úr Ármanni en hún keppti til úrslita á móti nýkrýndum Íslandsmeistara í svigi Sonju Li Kristinsdóttur úr SKA sem endaði í öðru sæti. Eyrún Erla Gestsdóttir úr Víking og Sara Mjöll Jóhannsdóttir úr Ármanni kepptu um 3. sætið og það var Eyrún Erla sem hafði gott betur og náði bronsinu.
Íslandsmeistari karla varð Matthías Kristinsson úr SFÓ en hann keppti til úrslita á móti Pétri Reidar Péturssyni úr KR sem endaði annar. Það voru svo Andri Kári Unnarsson úr Ármanni og landsliðsmaðurinn Tobias Hansen úr SKA sem áttu að keppa um 3. sætið en Tobias Hansen meiddist og gat því ekki keppt í undankeppninni á móti Matthíasi og því fór Matthías beint áfram í úrslit og Andri Kári fékk 3. sætið. Þess má geta að nýkrýndur Íslandsmeistari í svigi Gauti Guðmundsson úr KR var dæmur úr leik í undanrásunum.
Skíðasambandið óskar nýkrýndum Íslandsmeisturum og öðrum verðlaunahöfum til hamingju.
Við viljum einnig óska Austfirðingum til hamingju með fyrsta landsmótið sem haldið er í Odsskarði og þökkum þeim um leið fyrir gestrisnina og frábært mót í alla staði.