Hófí Dóra og Jón Erik Íslandsmeistarar í stórsvigi

Það var keppt í stórsvigi karla og kvenna á Skíðamóti Íslands sem fram fer í Oddsskarði þessa dagana.

Aðstæður voru góðar þrátt fyrir að ýta hafi þurft töluverðum snjó úr brekkunum í morgun svo að aðstæður yrðu keppnishæfar. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem Skíðamót Íslands er haldið í Oddsskarði. Árið 2005 þegar átti að halda landsmót þar þá varð að færa það á Tindstól vegna snjóleysis. 

Íslandsmeistari kvenna varð landsliðskonan okkar Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir úr Ármanni en hún var með lang besta tímann í fyrri og seinni ferð. Í öðru sæti varð Þórdís Helga Grétarsdóttir úr Víking +5.18 sek á eftir Hófí Dóru og í þriðja sæti varð Eyrún Erla Gestsdóttir einnig úr Víking +5.44 sek á eftir. 

Sjá úrslit hér

Íslandsmeistari karla varð landsliðsmaðurinn okkar Jón Erik Sigurðsson úr Fram. Hann var með þriðja tímann eftir fyrri ferðina en tók brautartímann í seinni ferðinni sem dugði honum til sigurs. Þess má geta að þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Jóns Eriks í fullorðinsflokki. Bjarni Þór Hauksson úr Víking varð í öðru sæti +0.23 sek á eftir og í þriðja sæti varð Gauti Guðmundsson úr KR +0.65 sek á eftir. 

Tobias Hansen úr SKA var með besta tímann eftir fyrri ferðina, en hann fór út úr í seinni ferðinni og náði því miður ekki að ljúka keppni. 

Sjá úrslit hér

Á morgun laugardag verður svo keppt í svigi karla og kvenna og búast má við spennandi keppni í Oddsskarði. 

Skíðasambandið óskar Íslandsmeisturum og öðrum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn.