Keppni dagsins á HM í Seefeld var 15 km ganga með hefðbundinni aðferð hjá körlum. Þrír íslenskir keppendur voru skráðir til leiks en það voru þeir Albert Jónsson, Dagur Benediktsson og Snorri Einarsson. Fjórir íslenskir keppendur höfðu þátttökurétt en Isak Stianson Pedersen þurfti að hætta við keppni sökum veikinda.
Snorri Einarsson hafði rásnúmer 1 af alls 93 keppendum sem voru skráðir til leiks. Erfitt var að lesa í aðstæður fyrirfram, hvort það væri gott að ræsa snemma eða seint. Aðstæður voru virkilega krefjandi en mikill hiti er á svæðinni og snjórinn blautur og þungur á mörgum köflum. Fljótlega kom í ljós að betur reyndist að ræsa seinna þegar spor var komið í brautina en fyrstu keppendur lentu í því að sökkva mikið í brautinni. Albert Jónsson ræsti nr. 88 og Dagur Benediktsson ræsti nr. 92.
Snorri var í basli í byrjun þar sem hann var fyrstur út og var augljós tímamunur á fyrri og seinni hring hjá honum. Að lokum endaði Snorri í 43.sæti og var hann frekar ósáttur við árangur dagsins en þegar horft er á aðstæður og hvernig mótið þróaðist verður þetta að teljast fínn árangur.
Bæði Albert og Dagur hafa verið að glíma við smávægileg veikindi og fundu þeir fyrir því í keppni dagsins.
Miðvikudagur 27.febrúar - 15 km C
43.sæti - Snorri Einarsson 76.09 FIS stig
84.sæti - Albert Jónsson 208.08 FIS stig
87.sæti - Dagur Benediktsson 225.59 FIS stig
Heildarúrslit má finna hér.
Allir íslensku keppendurnir, nema Snorri Einarsson, hafa því lokið keppni á HM í Seefeld. Snorri keppir á sunnudaginn í 50 km göngu með frjálsri aðferð og hópræsingu.