Tæknigreinarnar á HM í alpagreinum hófust í dag þegar keppt var í aðalkeppni í stórsvigi kvenna. Engin undankeppni var fyrir stórsvig kvenna og því fóru þær allar beint í aðalkeppnina. Aðstæður voru hinar bestu, heiðskýrt, sól og smá frost og var snjórinn í keppnisbakkanum mjög harður.
Alls voru 99 keppendur sem hófu keppni og ræstu okkar konur út í eftirfarandi röð: Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir 58, Sigríður Dröfn Auðunsdóttir 66, Katla Björg Dagbjartsdóttir 75 og Hjördís Birna Ingvadóttir 77, en farið er eftir stöðu á heimslista við úthlutun rásnúmera.
Öllum fjórum tókst að ljúka fyrri ferð. Katla Björg átti virkilega flotta ferð og fór úr rásnúmeri 75 og í 41.sæti eftir þá fyrri, Hólmfríður Dóra var í 43.sæti, Sigríður Dröfn í 48.sæti en Hjördís Birna var dæmd úr leik í fyrri ferð eftir að hafa klárað ferðina. Alls fengu 60 bestu að fara seinni ferðina og því komust þrjár íslenskar konur áfram.
Í seinni ferðinni átti Katla Björg aftur flotta ferð og endaði að lokum í 34.sæti og fékk 95.13 sem er mikil bæting á heimslistanum en þar er hún með 142.96 FIS stig. Hólmfríður Dóra kom einu sæti á eftir í því 35. og fékk 125.43 FIS stig sem er nokkuð frá hennar heimslistastöðu. Sigríður Dröfn náði ekki að ljúka keppni í seinni ferðinni.
Stórsvig kvenna
34.sæti - Katla Björg Dagbjartsdóttir
35.sæti - Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir
Sigríður Dröfn Auðunsdóttir lauk ekki seinni ferð.
Hjördís Birna Ingvadóttir var dæmd úr leik í fyrri ferð.
Heildarúrslit frá stórsviginu má sjá hér.
Upphaflega átti að fara fram undankeppni í svigi hjá konum á morgun en þeirri keppni hefur verið aflýst þar sem heildarfjöldi skráðra kvenna í svigið er innan við 100 sem má hefja keppni í aðalkeppninni. Því fara þær allar fjórar beint í aðalkeppnina á laugardag.