Hluti af landsliði alpagreina í Norður-Ameríku bikar í Kanada

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir tekur þátt í risasvigi á morgun
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir tekur þátt í risasvigi á morgun

Hluti af landsliði alpagreina tekur þátt í Norður-Ameríku bikar á næstu dögum í Kanada. Einhverjir ættu að þekkja mótsstaðinn en skíðasvæðið heitir Nakiska og stendur rétt vestan við Calgary í Kanada. Á þessu skíðasvæði fór fram keppni í alpagreinum á Vetrarólympíuleikunum 1988, sem einmitt fóru fram í Calgary.

Þau Sturla Snær Snorrason úr A landsliðinu og Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir úr B landsliðinu taka þátt í þessu verkefni ásamt Grím Rúnarssyni landsliðsþjálfara og aðstoðarmanni. Norður-Ameríku bikar er hluti af álfubikarsmótaröð alþjóðaskíðasambandsins FIS sem eru næst sterkustu mótaraðir heims á eftir heimsbikarnum.

Á morgun hefst keppni með risasvigi og Hólmfríður Dóra mun taka þátt í því. Hólmfríður Dóra og Sturla Snær taka svo bæði þátt í stórsvigi og svigi sem fer fram 17.-20.desember.

Dagskrá
16.des - Risasvig
17.des - Stórsvig
18.des - Stórsvig
19.des - Svig
20.des - Svig

Öll úrslit og lifandi tímatöku verður hægt að sjá hér.

Hægt er að sjá myndir og fleira frá hópnum á Instagram-síðu Skíðasambands Íslands.