Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson frá skíðadeild Víkings var rétt í þessu að vinna til sinna fyrstu gullverðlauna í stórsvigi á alþjóðlegu skíðamóti! Hilmar var með lokatímann 1:37.23 mín. og var rúmlega hálfri sekúndu á undan Slóvakanum Martin France sem hafði betur gegn Hilmari í stórsviginu í gær. Hilmar er staddur í Slóvakíu á Evrópumótaröð Alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC).
Með sigrinum í dag varð Hilmar fyrstur Íslendinga til þess að vinna gullverðlaun í stórsvigi á alþjóðlegu alpagreinamóti fatlaðra. Hilmar var annar eftir fyrri ferðina í morgun á tímanum 47,30 sek. en var eini skíðamaðurinn sem fór undir 50 sekúndur í seinni ferðinni er hann kom í mark á 49,93 sek. og með heildartímann 1:37,23 mín.
Hilmar hefur haft í nægu að snúast undanfarið og hefur stimplað sig rækilega inn sem einn af sterkustu svigmönnum heims í standandi flokki og er nú á hraðri uppleið upp styrkleikalistann í stórsvigi.
Næstu tvo daga taka við keppnir í svigi hjá Hilmari og svo í lok febrúarmánaðar keppir hann á lokamóti Evrópumótaraðarinnar í Zagreb.
Úrslitin úr mótinu í dag má sjá nánar hér.
SKÍ óskar Hilmari innilega til hamingju með þennan frábæra sigur!