Heimsmeistaramót unglinga í skíðagöngu fer fram í Schilpario á Ítalíu dagana 3.-9. febrúar þar sem Ísland mun eiga þrjá keppendur.
Keppendur voru valdir af Skíðasambandinu eftir áður útgefnum reglum, en þeir sem unnu sér inn keppnisrétt eru landsliðsmaðurinn Fróði Hymer úr Skíðagöngufélaginu Ulli, Ástmar Helgi Krisjánsson og Grétar Smári Samúelsson sem eru báðir úr Skíðafélagi Ísafjarðar.
Þjálfari ferðinnar er Thorstein Hymer og honum til halds og traust verður Guðmundur Rafn Kristjánsson og sjá þeir einnig um að smyrja skíðin fyrir keppendur.
Hópurinn flýgur til Ítalíu á morgun föstudag þar sem þeir ætla að koma sér fyrir og ná að kynnast aðstæðum áður en keppni hefst.
Á mánudeginum 3. febrúar hefja þeir síðan keppni með sprettgöngu með hefðbundinni aðferð. Á miðvikudeginum 5. febrúar er 20 km hópstart með hefðbundinni aðferð og svo enda okkar strákar á því að keppa í 10 km með frjálsri aðferð á föstudeginum 7. febrúar.