Heimsbikarmótaröðin í skíðagöngu hélt áfram í dag með sprettgöngu í Lillehammer. Upphaflega stóð til að Snorri Einarsson tæki þátt en ákveðið var að hann myndi hvíla í dag. Mikið álag hefur verið á Snorra, bæði æfingalega og ekki síður útaf ferðalögum. Einnig mun Snorri einblína meira á lengri vegalengdir en þó taka einhverja spretti með.
En Snorri verður með í 30 km skiptigöngu á morgun. Hún fer þannig fram að byrjað er að ganga 15 km með hefðbundinni aðferð, að því loknu skipta keppendur um skíði og fara svo 15 km með frjálsri aðferð. Keppni hjá körlunum hefst kl.10:45 á morgun og má búast við hörku keppni.
Snorri verður nr. 65 í göngunni á morgun af samtals 72 keppendum og verður ræst með hópstarti. Ráslista er hægt að sjá hér.
Um síðustu helgi náði Snorri frábærum árangri þegar hann endaði í 22. og 27.sæti á heimsbikarmótaröðinni.
Hér verður hægt að finna lifandi tímatökur. Keppnin verður svo í beinni útsendingu á Eurosport, NRK, SVT og fleiri stöðvum.