Fyrsta skíðaskotfimimót í nýrri mótaröð Skíðasambandsins fór fram í Selárdal við Hólmavík sunnudaginn 10. mars sl. Alls voru 49 keppendur á breiðu aldursbili, sem skráðri voru til leiks og luku nær allir þátttakendur keppni.
Okkar besti skíðagöngumaður á undanförum árum, Snorri Einarsson SFÍ sigraði í karlaflokki og í flokki 36 ára og eldri, eftir harða keppni við heimamanninn Ragnar Bragason.
Salóme Grímsdóttir Skíðagöngufélaginu Ulli sigraði í kvennaflokki einni sekúndu á undan Elínu Mörtu Eiríksdóttur úr SFÍ.
Í flokki ungmenna kom heimamaðurinn Jökull Ingimundur Hlynsson fyrstur í mark í karlaflokki og Viktoria Rós Guseva Skíðafélagi Akureyrar í kvennaflokki fyrst í mark.
Keppt var skv. reglum IBU (Alþjóðaskíðaskotfimi sambandsins) að því frátöldu að keppendur skíðuðu ekki með rifflana. Í ungmennaflokkum var keppt með „laser“ rifflum. Tveir eftirlitsfulltrúar IBU, þau Dagmara Gerasimuk og Tomasz Barnat voru á staðnum og veittu mótshöldurum og SKÍ góð ráð um skipulag, undirbúning og framkvæmd móta. Þau voru ánægð með framkvæmd mótsins, keppendur og þann mikla áhuga sem þau sögðust upplifa á meðan mótinu stóð.
Heildarúrslit má sjá hér á timataka.net.