Í dag laugardag var keppt í svigi karla og kvenna á Skíðamóti Íslands sem fram fer í Oddsskarði um helgina.
Það voru frábærar aðstæður til mótahalds í dag þrátt fyrir að sólin léti sig vanta.
Íslandsmeistari kvenna varð Sonja Li Kristinsdóttir úr SKA á tímanum 1:57.10 min en hún átti frábæra fyrri ferð og var með mikið forskot á landsliðskonuna Hólmfríði Dóru Friðgeirsdóttur úr Ármanni sem varð í öðru sæti. Hófí Dóra átti síðan betri seinni ferð og náði brautartímanum en það dugði henni ekki til sigurs og endaði hún +0.14 sek á eftir Sonju Li. Það var síðan Ármenningurinn Sara Mjöll Jóhannsdóttir sem nældi í bronsið +4.04 sek á eftir. Þess má geta að þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill Sonju Li í fullorðinsflokki.
Íslandsmeistari karla varð landsliðsmaðurinn Gauti Guðmundsson úr KR á tímanum 1:46.04 min, en hann var með annan besta tímann eftir fyrri ferðina aðeins +0.09 á eftir Jóni Erik Sigurðsyni úr Fram og - 0.09 á undan Bjarna Þór Haukssyni úr Víking. Þetta var því æsi spennandi keppni í karlaflokkinum. Í seinni ferðinni þá átti Gauti frábæra ferð og sigraði með yfirburðum, en Jón Eirk náði því miður ekki að ljúka keppni. Bjarni Þór varð í öðru sæti +1.26 sek á eftir og í þriðja sæti varð Dalvíkingurinn Torfi Jóhann Sveinsson +6.37 á eftir. Þetta var einnig fyrsti Íslandsmeistaratitill Gauta í fullorðinsflokki.
Skíðasambandið óskar Íslandsmeisturum og öðrum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn.