Gauti Guðmundsson á palli á Ítalíu

Hluti af karlalandsliðinu okkar í alpagreinum tók þátt í alþjóðlegu svigmóti á Ítalíu í dag og árangurinn stóð ekki á sér. 

Gauti Guðmundsson var í 11. sæti eftir fyrri ferðina en átti frábæra seinni ferð þar sem hann tók besta tímann og endaði í 2. sæti. Hann fékk 28.51 FIS punkta fyrir mótið sem er hans besti árangur á ferlinum.

Jón Erik Sigurðsson var 17. sæti á eftir Sturlu Snæ Snorrasyni sem var í 16. sæti eftir fyrri ferðina en þeir áttu báðir miklu betri seinni ferð og var Jón Erik með annan tímann í seinni og Sturla Snær þriðja besta tímann sem skilaði Jóni Erik 7. sætinu og Sturlu Snæ 8. sætinu. Jón Erik fékk 33.85 FIS punkta sem eru hans allra bestu á ferlinum og Sturla Snær fékk 35.70 FIS punkta sem er heilmikil bæting á heimslista þrátt fyrir að vera töluvert frá hans bestu punktum á ferlinum. 

Sjá úrslit hér: National Junior Championships Valle di Casies (ITA)

Marko Špoljarić, landsliðsþjálfari, sagðist hafa átt vona á þessum árangri enda sé búið að ganga mjög vel á æfingum í haust. 

Aðspurður segist Gauti vera mjög sáttur með árangurinn. Undirbúningstímabilið hafi gengið mjög vel og að það sé gaman að sjá bætingu strax á fyrstu mótunum. 

Skíðasambandið náði einni tali af Jóni Erik sem sagði þetta: "Ég er ánægður að miklar æfingar eru byrjaðar að skila sér en ég á ennþá nóg inni".

 

Skíðasambandið óskar þeim til hamingju með frábæran árangur.