Á morgun, laugardag, mun Snorri Einarsson keppa á sínu fyrsta heimsbikarmóti í skíðagöngu undir merkjum Íslands. Mótið fer fram í La Clusaz í Frakklandi og má með sanni segja að aðstæður séu í meira lagi sérstakar. Nánast enginn snjór er á svæðinu og hefur snjór verið ferjaður á svæðið frá öðrum stöðum. FIS hefur þó staðfest að mótið muni fara fram í La Clusaz, en einungis er ein lína af snjó sem myndar keppnisbrautina. Upphaflega átti að keppa í 30km skiptigöngu en vegna aðstæðna var breytt í 15km göngu með frjálsri aðferð og hópstarti.
Keppnin hefst kl.12:30 á íslenskum tíma og verður mótið í beinni útsendingu á fjölmörgum sjónvarpsstöðum eins og t.d. Eurosport, NRK og SVT.
Snorri hefur í haust náð góðum úrslitum á alþjóðlegum FIS mótum eins og 2.sætið í Olos í Finnlandi nýverið og 13.sæti á gríðarlega sterku móti í Beitostolen í Noregi. Það verður því fróðlegt að sjá hvar okkar maður stendur á stóra sviðinu í heimsbikarnum á laugardaginn.
Að neðan má sjá myndir frá mótsstað sem eru eins og áður segir mjög áhugaverðar. Hérna er svo hægt að nálgast allar upplýsingar um mótið og lifandi tímatöku.