Skíðagöngustrákarnir okkar, Fróði Hymer, Ástmar Helgi Kristjánsson og Grétar Smári Samúelsson, tóku allir þátt í 20 km hópstarti með hefðbundinni aðferð á Heimsmeistaramóti unglinga í skíðagöngu sem fram fer í Schilpario á Ítalíu.
Fróði sem er B-landsliðsmaður og keppir fyrir Skíðagöngufélagið Ull átti frábæra göngu og endaði í 32. sæti af 81 sem hófu keppni og var +4:59.7 á eftir sigurveigaraum Lars Heggen frá Noregi. Þetta er besti árangur Íslands á HM unglinga í skíðagöngu frá upphafi. Áður var það Daníel Jakobsson frá Ísafirði sem átti besta árangurinn en hann náði 37. sæti, +6:36.9 mín á eftir sigurveigaranum, í 30 km göngu með frjálsri aðferð árið 1993.
Ástmar Helgi Kristjánsson átti einnig mjög góða göngu og endaði hann í 61. sæti +11:38.5 á eftir sigurveigaranum. Grétar Smári Samúlesson fékk því miður ekki að klára keppni.
Aðstæður voru krefjandi, brautin var mjög hröð og mikill ís í öllum beyjum sem gerði keppendum erfitt fyrir og voru margir sem duttu oftar en einu sinni á leiðinni.
SKÍ náði tali af Fróða sem var að vonum ánægður með árangurinn þó að markmiðið hafi verið sett hærra, en miðað við formið og gengið undanfarið þá hafi árangurinn farið fram úr björtustu vonum. Fróði hafði orð á því að Íslensku strákarnir hafi líklega verið með hröðustu skíðin sem hafi hjálpað honum mikið. Það eru þeir Thorstein Hymer og Guðmundur Rafn Kristjánsson sem sjá um að smyrja skíðin fyrir strákana.
Strákarnir taka síðan þátt í 10 km með frjálsri aðferð á föstudaginn 7. febrúar og er það einmitt gangan sem Fróði er mest spenntur fyrir, það verður því gaman að sjá hvernig strákarnir standa sig þá.
Skíðasambandið óskar strákunum til hamingju með flotta göngu og góðs gengis á föstudaginn.
Sjá öll úrslit hér og live timing