Á morgun, miðvikudag, hefst lokamótið í bandarísku háskólamótaröðinni NCAA en það fer fram í Steamboat Springs í Colorado fylki. Á morgun verður keppt í stórsvigi og á föstudaginn fer fram svig keppnin. Í öllum íþróttagreinum í Bandaríkjunum fer fram háskólakeppni og fá allir keppendur stig fyrir árangur sinn á hverju mót fyrir sig. Í lok hvers keppnistímabils er svo lokamót en þangað komast einungis þeir sem eru efstir í stigalistanum hverju sinni. Í ár komust bæði Freydís og María áfram en einungis komust 16 bestu stelpurnar frá hvorri deild í alpagreinum, austur-deild og vestur-deild. Freydís fer áfram úr austur-deildinni en hún keppir fyrir Plymouth State háskólan á meðan María fer áfram úr vestur-deildinni en hún keppir fyrir háskólan í Anchorage í Alaska. Báðar hafa þær staðið sig gríðarlega vel í vetur og verið að bæta sig mikið á heimslista. Nýverið kepptu þær á lokamótum austur- og vesturdeildar og endaðu þar báðir í 2.sæti.
Það verður gaman að sjá hvað þær gera á lokamótunum og munum við fylgjast vel með. Á heimasíðu NCAA er hægt að fá frekari upplýsingar um lokamótið.
Bæði Freydís og María koma svo heim til Íslands og keppa á Skíðamóti Íslands sem fer fram í Reykjavík 31.mars - 3.apríl. Þar á María titil að verja í öllum greinum en síðast varð hún fjórfaldur Íslandsmeistari.