Fréttir af landsliðum í alpagreinum og skíðagöngu

Landsliðin okkar í alpagreinum og skíðagöngu eru komin á fullt á nýju tímabili og voru bæði liðin með samæfingu í síðustu viku og um helgina. 

Samæfing í skíðagöngu fór fram  í Bláfjöllum og Reykjavík dagana 16. -23. júni. Landsliðsþjálfarinn hann Vegard Karlstrom mætti til landsins á þessa fyrstu samæfingu á nýju tímabili og honum til halds og traust var okkar besti skíðagöngumaður frá upphafi Snorri Eyþór Einarsson. A-liðs fólkið okkar þau Dagur Benediktsson og Kristrún Guðnadóttir mættu ásamt stórum hluta af afrekshópi í Bláfjöll þar sem var gist og æft hluta af tímanum.

Þau nýttu tímann vel æfðu samtals í 24 tíma á 7 dögum. Tóku 13 æfingar, eitt hjólaksíðainterval og síðan þóku þau þátt í Miðnæturhlaupi Suzuki í boði Íþróttabandalags Reykjavíkur. Veðrið lék alls ekki við þau allan tímann en víkingarnir okkar létu það ekki á sig fá. 

Alpagreinalandsliðið ásamt afrekshóp var með samæfingu á Tindastóli dagana 19. -24. júní. Nýráðinn landsliðsþjálfari Marko Špoljarić kom til landsins og var þetta hans fyrsta verkefni með nýju landsliði. A-liðs fólkið okkar þau Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir og Gauti Guðmundsson mættu ásamt B-liðs fólkinu Elínu Elmarsdóttur Van Pelt og Jóni Erik Sigurðssyni og nokkrum úr afrekshópi. Aðstæður voru frábærar þökk sé forstöðumanni skíðasvæðisins á Tindastóli sem var búin að undirbúa svæðið vel og lét sólin sjá sig flesta daga en rigningin lét einnig á sér bera en okkar fólk er öllu vant og lét það ekki á sig fá. Marko Špoljarić er ánægður með dagana og segir að aðstæður í júní á Íslandi hafi komið sér skemmtilega á óvart. 

Skíðaæfingarnar voru 9 á þessum 5 dögum eða samtals yfir 20 klukkutíma og skíðaði hver og einn í u.þ.b. 25 km á dag

SKÍ vill þakka öllum þeim sem tóku sér tíma til að aðstoða við þessar samæfingar hvort sem var að elda mat, bjóða í mat, salta, skafa, troða brekkurnar eða annað. Þökkum einnig veitingastaðnum Jómfrúnni og Íþróttabandalagi Reykjavíkur fyrir stuðninginn.