Framundan er stór vetur þar sem Vetrarólympíuleikar fara fram í Suður-Kóreu í febrúar 2018. Landsliðfólk í alpagreinum búa sig að krafti undir það verkefni sem verður hápunktur vetrarins.
Freydís Halla Einarsdóttir
Er á sínu þriðja ári í Plymouth State háskólanum á austurströnd Bandaríkjana. Hún er í skíðaliði skólans og mun æfa þar í vetur í bland við landsliðsferðir. 13.-24.ágúst var Freydís Halla við æfingar á Zermatt jökli í Sviss við góðar aðstæður. Æfði hún í um 3500 metra hæð yfir sjávarmáli og voru þetta hennar fyrstu skíðadagar á þessu tímabili. Æfði hún meðal annars með E-cup liðum frá Sviss, Austurríki og Þýskalandi. Mun taka þátt í landsliðsferð í október þegar farið verður á Hintertux jökul í Austurríki.
Helga María Vilhjálmsdóttir
Verður lítið með í vetur útaf meiðslum. Var við æfingar á Fonna jökli í Noregi með sínu nýja liði, Ski Star, þegar hún datt með þeim afleiðingum að hún fótbrotnaði 24.ágúst síðast liðinn. Fór í aðgerð sem heppnaðist vel og verður búsett í Oslo í vetur þar sem hún mun stunda nám.
María Guðmundsdóttir
Missti af öllum síðasta vetri útaf meiðslum og þurfti að fara aftur í aðgerð í vor. Í sumar var hún í endurhæfingu og á haustmánuðum var hún farin að gera léttar styrktaræfingar. Óljóst er hvenær hún getur byrjað að kepa en vonandi nær hún að taka einhvern þátt á mótum í vetur. Er í háskólanámi í Anchorage í Alaska þar sem hún er á sínu þriðja ári í skólanum.
Sturla Snær Snorrason
Gekk til liðs við "World Racing Academy" í vor. Um sjálfstætt lið er að ræða þar sem sterkir skíðamenn koma frá mismunandi löndum. Þegar þetta er skrifað er Sturla í sinni fjórðu ferð erlendis á skíðum. Í sumar fór hann í tvær tveggja vikna ferðir á jökul á Ítalíu og svo í ágúst fór hann í viku ferð í skíðahús í Wittenburg í Þýskalandi. Framundan eru tvær ferðir í október, annars vegar í byrjun október á Hintertux jökul í Austurríki og hinsvegar á Schnals jökul á Ítalíu í lok október. Sturla Snær er gríðarlega ánægður með prógramið og segist vera að nálgast sitt allra besta form.
Egill Ingi Jónsson, landsliðsþjálfari, fer með hluta af B landsliðinu í skíðahús í Landgraaf Hollandi frá 24.-28.september. Í október verður svo farið í tveggja vikna ferð á Hintertux jökul í Austurríki þar sem aðilar úr A og B landsliðinu munu taka þátt.