Viðburðarríku Skíðaþingi lauk um helgina, en það fór fram á Egilsstöðum frá föstudegi til laugardags. Á föstudeginum voru hefðbundin þingstörf áður en þinginu var frestað. Á laugardeginum hófst þingið á nefndarstörfum og lauk með atkvæðagreiðslum. Einar Þór Bjarnason var endurkjörinn formaður SKÍ til næstu tveggja ára en hann var sjálfkjörinn. Smári Þorvaldsson og Egill Ingi Jónsson gáfu ekki kost á sér áfram í stjórn og vill SKÍ þakka þeim fyrir þeirra störf undanfarin ár. Í stað þeirra komu þeir Auðunn Kristinsson og Jóhann Friðrik Haraldsson, ekki voru fleiri framboð og því var stjórnin sjálfkjörin. Um 40 þingfulltrúar af öllu landinu mættu á Skíðaþingið.
Fyrir þinginu lágu 15 tillögur og voru þær ræddar í nefndunum og svo afgreiddar í kjölfarið.
Meðal þeirra breytinga sem voru gerð voru lagabreytingar sem fela í sér breytingar á nefndaskipan sambandsins. Einnig var gerð breyting á gerð lagabreytinga, en nú taka lagabreytingar lengri tíma en áður. Ekki var samþykkt tillaga um breytingu á þingfulltrúum.
Samþykkt var að hefja bikarmót fyrir 12-13 ára flokk í alpagreinum, en með þeirri breytingu muna verða bikarmót í öllum greinum 12 ára og eldri frá og með næsta vetri. Einnig munu öll mót telja í bikarkeppni allra flokka í öllum greinum.
Ný afreksstefna sambandsins var lögð fyrir þingið og var hún samþykkt samhljóða eftir smá breytingar inní nefndunum. Voru allir þingfulltrúar sammála um að þetta væri góð afreksstefna og tímabær endurnýjun.
Ein heiðursviðurkenning var veitt á þinginu, Sigurður Hólm Freysson fékk silfurmerki SKÍ en hann hefur unnið mikið og gott starf fyrir Skíðafélag Fjarðarbyggðar í mörg ár.