Skíðagöngumót Íslands fór fram í Hlíðarfjalli í dag þegar keppt var í sprettgöngu. Veðrið lék um keppendur sem og starfsfólk og aðra gesti og voru aðstæður mjög fínar þrátt fyrir að færið væri heldur mjúkt.
Landsliðsmaðurinn okkar Dagur Benediktsson kom sá og sigraði og nældi sér í Íslandsmeistaratitilinn, en hann gekk á tímanum 00:03:04.70. Í öðru sæti var enginn annar en okkar besti skíðagöngumaður frá upphafi, Snorri Eyþór Einarsson, en hann gekk á tímanum 00:03:10.02. Það var síðan Ástmar Helgi Kristjánsson sem tók bronsið á tímanum 00:03:10.81, en mikil keppni var á milli Ástmars Helga og Einars Árna Gíslasonar úr SKA um þriðja sætið og ekki munaði nema hársbreidd á milli þeirra. Skíðafélag Ísafjarðar fékk öll verðlaunin í karla flokkinum.
Sjá úrslit hér
Í kvennaflokkinum var það landsliðskonan okkar Kristrún Guðnadóttir sem varð Íslandsmeistari í sprettgöngu á tímanum 00:03:45.51. Í öðru sæti varð María Kristín Ólafsdóttir á tímanum 00:03:50.56 og í því þriðja Sigríður Dóra Guðmundsdóttir á tímanum 00:04:34.58, en þær eru allar úr Skíðagöngufélaginu Ulli. Mótið í dag var jafnframt alþjóðlegt mót og var það hin sænska Karin Björnlinger sem bar sigur úr bítum á tímanum 00:03:40.19.
Sjá úrslit hér
Mikil og vaxandi þátttaka er í skíðagöngumótum og ber þetta mót vott um mikla framþróun í greininni. Keppt er í fjórum aldursflokkum karla og kvenna, frá 13 ára í fullorðna.
Sjá öll úrslit dagsins hér
Skíðasambandið óskar Íslandsmeisturum og öðrum verðlaunahöfum til hamingju með árangurinn.
Á morgun verður keppt í 3.5 km, 7 km og 10 km göngu með hefðbundinni aðferð.
Hægt er að sjá úrslitin beint hér sem og ráslista. Enn fremur birast úrslitin á úrslitasíðu FIS