Í dag fór fram 10 km ganga með hefðbundinni aðferð á heimsmeistaramótinu í skíðagöngu sem fram fer í Þrándheimi í Noregi.
Ísland átti þrjá keppndur í karlaflokki, þá Dag Benediktsson úr SFÍ, Fróða Hymer úr Ulli og Ástmar Helga Kristinsson úr SFÍ.
Dagur átti mjög sterka göngu og endaði í 53. sæti af 107 keppendum, +3:02.9 á eftir sigurveigaranum Johannes Høsflot Klæbo sem gekk á tímanum 28:16.6 og fékk þar með þriðja gullið í jafn mörgum göngum á mótinu. Ástmar Helgi átti góða göngu og endaði í 90 sæti, +5:39.7 á eftir, en Fróði Hymer náði sér ekki á strik í dag þar sem dagsformið var eitthvað að stríða honum og endaði hann í 93. sæti, +5:53.6 á eftir og var alls ekki sáttur með árangurinn.
Dagur var mjög sáttur með daginn og sagði að það hafi gengið ótrúlega vel. Hann hafi byrjað hratt og reynt að halda hraðanum allan tímann. Skíðin hafi verið mjög góð en aðstæður erfiðar, mjög mjúkt fyirr stafina sem sukku í hverju stafataki.
Á morgun 5. mars er liðasprettur sem Dagur og Ástmar Helgi taka þátt í. Dagur mun síðan taka þátt í 50 km með frjálsri aðferð 8. mars og er það jafnfram síðasta greinin á mótinu.