Rétt í þessu lauk boðgöngu á Skíðamóti Íslands og var það síðasta keppnisgreinin í skíðagöngu. Til leiks voru skráð níu sveitir, þrjár hjá konum og sex hjá körlum. Allar sveitir voru með þrem liðsmönnum og gengu konurnar einn hring sem var 3,7km að lengd en karlarnir gengu tvo þannig hringi sem gerir 7,4km að lengd. Fyrirkomulagið var þannig að fyrstu tveir liðsmennirnir gengu með hefðbundinni aðferð en sá síðasti með frjálsri aðferð.
Í kvennaflokki voru skráðar þrjár sveitir, A og B sveit frá Ulli ásamt sveit frá Ísafirði. Strax í upphafi sást að baráttan yrði á milli A-sveit Ullar og Ísfirðinga en eftir fyrsta sprett var lítill munur á sveitunum. Í öðrum sprett náðu Ísfirðingar nokkuð góðu forskoti en það var um 1 mínúta þegar Ullungar gerðu sína síðustu skiptingu. Í síðastu göngunni átti Kristrún Guðnadóttir ótrúlegan sprett fyrir Ull en hún náði að vinna upp forskotið og kláraði með öruggu forskoti í mark, alveg magnaður hringur.
Boðganga kvenna
1. A-sveit Ullar - Katrín Árnadóttir, Auður Ebenesersdóttir og Kristrún Guðnadóttir - Lokatími: 42:45.
2. Sveit Ísfirðinga - Sólveig María Aspelund, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir og Guðbjörg Rós Sigurðardóttir - Lokatími: 43:15.
3. B-sveit Ullar - Ósk Ebenesersdóttir, Elín Gísladóttir og Harpa Sigríður Óskarsdóttir - Lokatími: 59:24.
Í karlaflokki var líka mikil spenna en þar voru sex sveitir skráðar til leiks, A og B sveit frá Ulli, A og B sveit frá Ísafirði, svo sitt hvor sveitin frá Akureyri og strandarmönnum. Akureyringar hafa verið sigursælir í boðgöngu undanfarin ár en fengu verðuga keppni frá sprækum Ísfirðingum í dag. Fyrsti hringur var nokkuð rólegur framan af og gengu fimm sveitir saman framan af hringnum, en þegar fyrsta hring var að ljúka var þetta orðið einvígi á milli B sveitar Ísafjarðar og sveit Akureyringa. Dagur Benediktsson úr B-sveit Ísfirðinga kláraði fyrstur úr fyrstu umferð en Gísli Einar Árnason var einungis um 6 sekúndum á eftir honum. Sigurðar Arnar Hannesson og Vadim Gusev tóku næstu umferð og skiptust þeir á að taka forystu en að lokum var Sigurður Arnar um 6 sekúndum á undan Vadim og því var B-sveit Ísafjarðar með sama forskot eftir tvær umferðir og eftir þá fyrstu. Við tók loka umferðin þar sem gengið var með frjálsri aðferð. Albert Jónsson frá Ísafirði byrjaði á miklum spretti en fyrir Akureyringana kom Brynjar Leó Kristinsson strax á eftir honum. Fyrst um sinn gengu þeir alveg saman en fljótlega fór Brynjar Leó fram úr honum og sýndi styrk sinn í frjálsu göngunni og gaf ekkert eftir. Þegar upp var staðið var sigurinn hjá Akureyringum nokkuð öruggur en þeir unnu með tæplega 1 mínútu eftir skemmtilega keppni. Í þriðja sæti endaði svo A-sveit Ísafjarðar eftir að hafa verið í 4.sæti nánast fram á síðasta hring en Daníel Jakobsson, fyrrum formaður SKÍ, átti flottan lokasprett.
Boðganga karla
1. Sveit Akureyrar - Gísli Einar Árnason, Vadim Gusev og Brynjar Leó Kristinsson - Lokatími: 1:19:45.
2. B-sveit Ísfirðinga - Dagur Benediktsson, Sigurður Arnar Hannesson og Albert Jónsson - Lokatími: 1:20:41.
3. A-sveit Ísfirðinga - Pétur Tryggvi Pétursson, Kristbjörn Róbert Sigurjónsson og Daníel Jakobsson - Lokatími: 1:29:54.
4. A-sveit Ullar - Ólafur Ragnar Helgason, Einar Ólafsson og Snorri Þ. Ingvarsson - Lokatími: 1:33.51.
5. B-sveit Ullar - Jón Ólafur Sigurjónsson, Árni Georgsson og Gunnlaugur Jónasson - Lokatími: 1:37:43.
6. Sveit SFS - Vignir Örn Pálsson, Magnús Steingrímsson og Ragnar Bragason - Lokatími: 1:42:21.
Flottu Skíðamóti Íslands í skíðagöngu er því lokið og gekk mótið vel í alla staði.